Björgvin Gíslason
 

Fyrsta sólóplatan

Fyrsta sólóplata Björgvins Gíslasonar, Öræfarokk, kom út 1977 og fékk góðar viðtökur en var ekki fylgt eftir af neinu gagni. Hann er nokkuð montinn af plötunni sem er hluti af safnútgáfunni í tilefni afmælisins haustið 2011. Nánar um það síðar.


Næst tók við leikhúsvinna. Þjóðleikhúsið setti upp söngleikinn Prinsessuna á bauninni og hljómsveit skipuð Sigga Karls, Jonna Ólafs og Didda fiðlu var fengin til að annast tónlistarflutninginn.

Í stuttu máli sagt var þetta hundleiðinleg sýning og flopp aldarinnar. Við vorum hafðir í turni yfir sviðinu og vorum þar með ýmsan fíflagang sem leikararnir kunni ekki allir að meta. Sumir heilsa ekki enn á förnum vegi! Gibson SG-gítarinn minn datt niður úr turninum og brotnaði illa. Honum var svo tjaslað saman nokkrum árum seinna og lenti uppá vegg í Hard Rock Café. Nú á Gísli sonur minn þennan ágæta gítar og kann vel að fara með hann.

Eftir Prinsessu-floppið vorið ’79 var farið í hljóðver til að gera plötuna Íslenska kjötsúpu eftir Jóhann G. Jóhannsson.

Þetta voru flott lög og konseptið skemmtilegt – líf popparans í gegnum súrt og sætt. Þarna spilaði ég á gítar og mandólín en aðrir voru Jonni Ólafs á bassa, Siggi Karls á trommur og Pétur Hjaltested á hljómborð. Þau María Helena Jónsdóttir og Siggi (Kjötsúpa) Sigurðsson sáu um sönginn. Þetta varð ekkert monster hitt – fékk reyndar heldur slaka dóma, minnir mig, en við fórum í túr um landið og hann gekk ágætlega, ef ég man rétt. Ég hef ekki hlustað á þessa plötu í mörg ár og veit ekki hvernig hún hefur elst – en ég man að mér þótti þetta bæði skemmilegt og ágætt. Auðvitað var ekkert upp úr þessu að hafa, frekar en fyrri daginn, og því fór ég um haustið að smíða með Sigga Bárðar fram á vorið. Ég spilaði litið þennan vetur – enda oft búinn í höndum og handleggjum eftir smíðarnar. Flestir vöðvar voru löngu búnir að gleyma að þeir væru til.

Vestur um haf

En alltaf var okkar maður að hugsa um Ameríku og snemmsumars 1980 kölluðu Björgvin og Didda til prest úr næsta húsi, voru gefin saman og flugu samdægurs vestur um haf með synina tvo, Ragnar og Óðinn Bolla. Í New York tók á móti þeim maður sem þau höfðu keypt af bíl og fóru með honum til Washington DC þar sem bíllinn beið. Eftir tvo daga í höfuðborginni var ekið niður austurströndina og til Mississippi.

Þar tók á móti okkur gamall vinur, Julius Egloff, sem hafði útvegað okkur stórt hús til að búa í í Bay St. Louis, um 80 þúsund manna pláss í þá daga. Mexíkóflóinn blasti við fyrir utan stofugluggann. Bay St. Louis er einskonar sumarhúsabær skammt frá New Orleans handan við fylkismörkin. Strákarnir byrjuðu fljótlega í skóla en við Didda lifðum hálfgerðu letilífi. Ég var að reyna að semja en gekk lítið til að byrja með. Umhverfið – eða eitthvað annað – virkaði ekki. En þetta var flott aðstaða og í húsinu ágætt píanó. Mr. McDonalds kom og stillti gripinn í byrjun og Didda bakaði pönnukökur og hellti uppá kaffi upp á íslenskan móð. Kallinn var húkkaður og kom vikulega til að kíkja á hljóðfærið og halda því í standi. Ekki veitti af í hitanum og rakanum sem þarna er. Ég fór svo að gera demó og senda í allar áttir, var m.a. í sambandi við Jakob Frímann Magnússon sem ævinlega var mjög hjálplegur. Jim Bateman kom í heimsókn til að hlusta á þessar upptökur en hann var pródúsent Gatemouth Browns, sem við Pétur höfðum hitt um árið í New Orleans.













Seinni part sumars fór ég upp í Bogalusa til að hitta David Craig sem hafði verið að semja fyrir Gatemouth. Við æfðum saman svolítið prógramm og fórum að spila – sem var fínt. Nokkrum vikum seinna hitti ég stráka sem voru með hörku rokkband sem spilaði mikið á þessu svæði, aðallega þó í herstöð í Biloxi. Það reyndist kunnuglegt umhverfi því sá klúbbur var nákvæmlega eins og Polar-klúbburinn á Keflavíkurflugvelli. Nákvæmlega eins!


Eitt kvöldið kom þarna hermaður með konunni sinni og sat og hlustaði. Eftir svolitla stund sneri hann sér að konunni og sagðist kannast við þennan gæja á gítarnum – hann hefði séð hann á Íslandi, þar sem hann hafði gegnt herþjónustu.

-Hvaða rugl er þetta í þér, sagði konan sem var Íslendingur.


Við Didda áttum eftir að kynnast þessu sómafólki síðar og þaðan kemur sagan. Ég fór sem sagt að spila með þessu bandi sem hét Trax. Ég kenndi þeim Á Sprengisandi, sem við höfðum gert vinsælt með Pelican, og það var skírt upp á nýtt og kallað Barbaramarsinn, Barbarian March. Uppistaðan í prógramminu var þó hörkurokk frá ZZ Top og þess háttar böndum. Þetta voru fínir strákar. Bucky er með band og spilar enn, Wolfie fórst í bílslysi fyrir mörgum árum en um Melvin veit ég ekkert. Þetta voru mjög ljúfir náungar. Æfingar voru haldnar í stórum trailer á bak við hús heima hjá Melvin sem átti fullt af börnum. Þarna var alltaf kveikt á sjónvarpinu þótt enginn væri að horfa á það nema hundurinn. Svo bilaði sjónvarpstækið og þá fór allt heimilislífið úr skorðum, meira að segja hundurinn varð hálf niðurdreginn.

Bucky Cole git                  Wolfie bass          Bogie git          Melvin tr

Björgvin            Melvin                  Wolfie                  Bucky

On the road með Gatemouth Brown

Samhliða þessu spilaði Björgvin með ýmsum öðrum eftir hendinni. Meðal nágranna þeirra í Bay St. Louis voru bræðurnir Michael og Rosy, af ítölskum ættum. Rosy hafði gegnt herþjónustu í Vietnam og var ”soldið flippaður”, eins og Björgvin segir. Hann spilaði á conga-trommur en Michael á munnhörpu. Þeir gerðu út á að spila í einkasamkvæmum í nágrenninu og fengu Björgvin með sér.

Sjóið gekk út á að þeir bræður rifust heiftarlega á ítölsku, sem þeir kunnu ekki orð í. Gestirnir lágu í krampaköstum af hlátri en ég var þarna á milli þeirra og vissi ekkert hvað var að gerast. Þetta var drepfyndið.


Það var sem sagt nóg að gera þótt kaupið væri lágt. Ég var með þessum bræðrum, spilaði með David í Bogalusa, Trax í herstöðinni og víðar og svo einstaka sinnum á börum þar sem ég spilaði músík eftir sjálfan mig á píanó. Það var illa borgað – mest var það upá krukkuna og borgara.


En svo gerðist að einn daginn að við David fengum boð um að hita upp fyrir Gatemouth Brown á konsert í Hammond Louisiana háskólanum. Þetta kom í gegnum einhvern umboðsmann frá Kaliforníu sem hélt varla vatni yfir spilamennskunni hjá okkur. Þegar við vorum búnir og karlinn að fara á svið, kom í ljós að píanistinn hans hafði ekki látið sjá sig svo karlinn bað mig að hlaupa í skarðið. Ég sló til – á gítar. Það gekk ágætlega – en saxófónleikarinn var eitthvað órólegur, hélt að ég skildi ekki ensku, og var sífellt að hrópa til mín tóntegundir. B flat, b flat, endurtók hann í sífellu.


Karlinn kynnti mig svo sérstaklega: ”Þegar ég var að selja ísskápa á Íslandi – ha ha ha – þá hitti ég þennan gítarista. Bogie, give him a big hand.”


   Nokkrum dögum seinna fékk ég upphringingu: Væri ég ekki til í að fara á túr með                             

   Gatemouth Brown? Ég hélt það nú.

Túrinn byrjaði í Dallas í Texas og þar tókst ævarandi vinátta með Björgvin og Myron Dove, bassaleikara, sem hann átti eftir að deila herbergi með það sem eftir var ferðarinnar. Myron kom síðar til Íslands og spilaði á annarri sólóplötu Björgvins, Glettum.


Fyrsti konsertinn með Gatemouth bandinu varð eftirminnilegur – og þó einkum það sem gerðist á eftir. Á tónleikunum höfðu þeir Björgvin og Myron Dove fengið sérlega hlýlegar viðtökur áheyrenda – og það kunni sá gamli ekki að meta. Það kom í ljós á fundi sem haldinn var í hljómsveitarbílnum er notaður var til að fara um Bandaríkin þver og endilöng.

Eina myndin sem ég fann af Gatemouth bandinu að spila. Myron lengst til hægri,Gate í miðju, Herman á settinu, Big foot sax, bakvið súluna,og ég lengst til vinstri. Myndina tók Hank Grebe.

Við vorum varla komnir inn í bílinn þegar karlinn byrjaði að hella sér yfir okkur, hvern á fætur öðrum. Fyrst var það trommuleikarinn sem var hakkaður í spað: Maður spilar ekki shuffle svona! hvæsti hann. Og svo gekk hann á línuna, allir voru hundskammaðir fyrir raunverulegar og ætlaðar yfirsjónir. Ég var kominn alveg undir sætið þegar loksins kom að mér. Ég man ekki mikið af því, var eiginlega kominn í blakkát þegar hann sneri sér að mér, en eitthvað var hann óánægður með að ég skyldi hreyfa mig of mikið á sviðinu, vera í strigaskóm og að vera með allt of sítt hár. Eftir á að hyggja var þetta ekki svo slæmt og ég get enn skemmt mér yfir þessari yfirhalningu

Ekki man ég hvar var spilað næsta kvöld – en við héldum í norður. Svo var spilað kvöld eftir kvöld, alltaf á nýjum stað. Allir tónleikar höfðu eitthvað sérstakt og skemmtilegt við sig – en að mestu rennur þetta í eina samfellu. Við spiluðum á alls konar stöðum - allt frá litlum klúbbum og upp í stóra hljómleikasali á mörgum hæðum. Það var keyrt, komið inn á nýtt hótel, stillt upp, étið ruslfæði eða soul food, spilað og svo var fundur í lokin þar sem menn voru teknir í gegn. En það skrítna var að bandið var alltaf að verða betra og betra. Kallinn vissi allveg hvernig átti að gera þetta – enda búinn að vera á stanslausu hljómleikaferðalagi frá 1947! En það væri synd að segja að Gatemouth hafi verið þægilegur í umgengni. Hann átti til að vera afundinn við mig, var líklega afbrýðissamur vegna þess að við Myron fengum alltaf mesta klappið. Hann var alltaf grumpy, kominn á þennan aldur, og alltaf að fá sér að reykja – þetta sem lyktar einkennilega og gerir mann skrítinn í hausnum

Byssukjaftur

Minnieapolis/St. Paul á laugardagskvöldi. Eftir konsertinn er mikill gestagangur baksviðs. Reynist vera starfsfólk frá bæjarsjónvarpinu (public TV) sem vildi fá bandið í heimsókn í myndverið á mánudagsmorgninum og var komið til að taka púlsinn á Gatemouth og félögum.

Karlinn var í essinu sínu og sagði sögur fram og til baka. Svo berst umræðan eitthvað að aldri og hann fer rúntinn á milli manna og spyr þá um aldur. Þegar kom að mér ætlaði ég að vera sniðugur og svaraði út í hött. Þá hvessti hann á mig augun, fór í jakkavasann og dró upp skammbyssu sem hann beindi að höfðinu á mér. Ég efaðist ekki um að byssan væri hlaðin og fraus gjörsamlega. Sennilega átti þetta að vera sniðugt hjá honum – en mér leið ekki vel með þetta og bakkaði út með magann í skónum. Daginn eftir sagði ég honum að ég gæti ekki spilað meira og myndi taka Greyhound-rútuna heim til Mississippi eftir sjónvarpsupptökuna á mánudagsmorgninum. Hljóðið var svo tekið upp en þegar átti að fara að mynda okkur bárust fréttir af því að einhver rugludallur hefði reynt að drepa Ronald Reagan forseta og þá snerist allt um tilræðið.


Hljóðprufan var svo send út seinna. Ég var ekki í miklu stuði þennan mánudag en fékk svo símtal frá Bateman sem bað mig lengstra orða að klára túrinn. Ég fékkst á það eftir nokkrar fortölur. Fyrir nokkrum árum hafði ég svo samband við þessa sjónvarpsstöð til að athuga hvort hægt væri að fá kópíu af hljóðupptökunni – en hún var þá týnd og tröllum gefin. Það hefði verið gaman að eiga kópíu. Nema hvað, við héldum túrnum áfram með sama hætti: keyra, stilla upp, spila, fundur í bílnum, nýtt hótel og svo framvegis. Ég man satt að segja ekki hvaða borgir voru næstar. Chicago, Detroit, Columbus...bara til að nefna einhverjar. Madison í Wiscounsin virkaði eins og maður væri kominn heim til Íslands. Þetta var mikið til eins – soul food eða borgarar. Hvað maður hefði ekki gefið fyrir kjötsúpu eða bjúgu! Af og til bættust nýir menn í bandið: píanisti, annar saxisti kom í Boston og í New York komu fleiri blásarar, þar á meðal stórkostlegur maður á trompet. Þessir gæjar mættu bara og spiluðu eins og þeir hefðu verið í bandinu alla tíð.


Einusinni lenti kalrinn í vandræðum. Hann hafði pantað sinn venjulega skammt af grasi en það var ekki til, svo hann fékk hass í staðinn. Nema hvað, hann verður svona svakalega veikur – svo tæpur að það leit út fyrir að við þyrftum að hætta við konsertinn. Ég sá svo hvar hann fór út og á bak við klúbbinn þar sem hann ældi eins og múkki. Ég fór á eftir honum og hjálpaði honum aðeins, hélt um ennið á honum...svona eins og menn gera.


Smátt og smátt hresstist hann og við spiluðum giggið. En eftir þetta breyttist viðhorf hans gagnvart mér talsvert. Hann fór að tala um að festa mig í bandinu – og hvort ég væri ekki til í að ganga í venjulegum skóm! Setti meira að segja reglu: No tennis shoes on the band stand! Svo fór hann að tala um að menn þyrftu kannski að láta klippa sig og svona en ég lét sem ég heyrði það ekki. Á þessum sama tíma var verið að skipuleggja nýja hljómleikaferð með Paul Simon og karlinn átti að hita upp fyrir hann. Þetta var orðið all svakalega spennandi.

Á heimleið niður eftir Austurströnd Bandaríkjanna fór Gatemouth að ýja að því að hann væri að byrja á nýrri plötu og að hann vildi fá Björgvin með sér í einhver lög. Vandinn var hins vegar sá að hann var að fara í hljómleikaferð til Evrópu og ætlaði ekki að byrja á plötunni fyrr en að henni afstaðinni. Björgvin gat illa farið til Evrópu og komið aftur til Bandaríkjanna á þeirri vegabréfsáritun sem hann hafði.

Þegar ég kom heim eftir langa spilaferð um Ameríku þvera og endilanga var komin heimþrá í Diddu. Ég var svo sem alveg sáttur við að fara heim aftur – búinn að prófa að vera on the road í Ameríku og ekki sérlega áhugasamur um að eyða ævinni þannig. Svo við fórum bara heim og höfum aldrei séð eftir því. En það hefði verið gaman að vera með á plötunni hjá Gatemouth því árið eftir fékk hún Grammy-verðlaun sem besta blúsplata ársins.