Björgvin Gíslason
 

“Það var góður vinur minn á Siglufirði, Gunnar Smári Helgason, sem sá um endurmasteringuna en áður þurfti að færa upphaflegu segulböndin yfir á stafrænt form,” segir Björgvin Gíslason. “Það gerði snillingurinn Hreinn Valdimarsson sem ævinlega er öðlingur heim að sækja. Fyrst þurfti samt að baka spólurnar í nokkra klukkutíma við vægan hita: gömul segulbönd sem liggja óhreyfð í mörg ár geta orðið að plastklessum sem sitja fastar á tónhausum upptökugræjanna. Það vildum við náttúrlega ekki og því settist ég við bakarofninn og stillti á lágan hita.”

Á sextugsafmæli Björgvins Gíslasonar gítarleikara 4. september kom út safn sólóplatna hans í vandaðri viðhafnarútgáfu undir nafninu Björgvin Gíslason X3. Um leið hélt Björgvin tvenna miðnæturtónleika – í Austurbæ í Reykjavík og á Græna hattinum á Akureyri. Diskasafnið kom formlega út á afmælisdaginn hans.

Björgvin Gíslason hefur um langt árabil verið í fremstu röð íslenskra gítarista og hefur leikið með flestum virtustu tónlistarmönnum landsins, sem og kunnum gítar- og blúshetjum í Bandaríkjunum og víðar.

Afmælisútgáfan hefur að geyma þrjár sólóplötur Björgvins - Öræfarokk, Glettur og Örugglega sem upphaflega komu út 1977, 1981 og 1983. Þær hafa nú verið yfirfærðar í stafrænt form og endur “masteraðar”.


Útgáfuréttinn að öllu þessu frumsamda efni hefur Björgvin nú eignast sjálfur eftir mikið japl, jaml og fuður.

Austurbær 4.September.L.M.Ericson  (Klikkið á mynd)

Austurbær 4.Sept Glettur.         (Klikkið á mynd)

Það var gaman að koma saman aftur og endurtaka leikinn frá í haust. Rosenberg er skemmtilegur staður að spila á .Svaka fín stemmning.  Meiningin er að spila jafnvel aftur 11.apríl. Ég lauma svo einu og einu videói á síðuna mína, svona þegar ég gef mér tíma.

Austurbær 4.sept 2012       Ambrosía/Og svo framvegis

Þetta sem er hér fyrir neðan er byrjunin á tónleikunum í haust. Ambrosía/Og svo framvegis

YES, það er ákveðið að spila aftur á Rósenberg 11.apríl


Það eru forréttindi að fá að leika sína eigin tónlist hvað eftir annað

með þessum snillingum. Eilífar þakkir.

“Ég þurfti að kaupa útgáfréttinn af Senu sen var áður Skífan sem hafði keypt útgáfuréttinn af Steinum, sem gáfu út Glettur og Örugglega. Steinar hafði svo líka keypt útgáfuréttinn að Öræfarokki af Takti sem áður var Fálkinn – sem hafði keypt réttinn af SG hljómplötum, sem gáfu plötuna út í upphafi. Þetta ferli sýnir hvað þessi bransi hefur verið brokkgengur. En nú á ég loksins sjálfur réttinn að þessu öllu og er bara stoltur eigandi. Það er í rauninni furðulegt að hafa þurft að standa í þessu – að fá aftur umráðarétt yfir efni sem ég hef samið sjálfur. En svona gerast kaupin á eyrinni.”

Stingum af 4.sept 2011

Það er allt að gerast!!!!

Austfirskir höfðingjar á Djúpavogi hafa boðið okkur að spila á árlegri Hammondhátíð á Djúpavogi. 19-22 apríl 2012 .  Við spilum þann tuttugasta.                                                                                                                                                                             Það verður ekki leiðinlegt. Hef spilað á þessari hátíð nokkrum sinnum, og skemmt mér konunglega. Björn Jörundur verður þó fjarri góðu gamni. Hann er nefnilega upptekinn í sjóræningjaleik á Akureyri.

En, Björgvin Ploder “mótorhjólaofurhugi” ætlar að koma með okkur  austur. Nafni er búinn að taka með okkur nokkrar æfingar, sem hann tæklaði flott. Hlakka til.                                                                                  

Að þessu tilefni langar mig að deila með ykkur lagi frá tónleikunum í Austurbæ, frá í haust.

Þetta er lagið Afi.

27.apríl 2012

Jæja, það er vika síðan við vorum á Djúpavogi í boði austfirskra höfðingja. Og ekki getum við kvartað yfir mótökunum. Það er alveg ótrúlegt, að geta haldið svona hátíð, með mjög svo fjölbreyttri dagskrá, ár eftir ár,og hátíð sem stendur undir sér líka. Hitti fólk frá Neskaupstað sem var búið að keyra í tvo tíma og átti eftir að keyra tvo tíma til baka. Hitti tvo, sem komu frá Kirkjubæjarklaustri. Það er töluverður bíltúr. Bandið var fínt að venju,og nafni minn Ploder stóð sig með mestu príði. Bandi fékk þessa fínu dóma á heimasíðu hátíðarinnar.

http://www.djupivogur.is/adalvefur/?pageid=2342

Nú erum við líklega komnir í frí með bandið fram á haust, en vonandi get ég platað menn í áframhaldandi spilamensku eftir sumarfrí. Hef bara ekki skemmt mér svona vel síðan í Tjarnarbúð með Náttúru.

23.maí 2012

Túr um landið.

Stundum fær maður klikkaðar hugmyndir.Fyrir nokkrum vikum, fékk ég þá brjálæðis hugmynd að fara um landið aleinn með sítar og gítar,og kynna Indverska tónlist. Forsagan var sú að fyrir jól var ég beðinn um að tala á fundi hjá Rótarý í Grafarvogi um Indverska sítarinn, og mér þótti þetta svo gaman að ég ákvað að fara með þetta lengra.Þannig að nú er þetta að skella á. Ákvað að heimsækja bara litla staði, og spila og spjalla um mína eigin tónlist líka. Búinn að bóka ellefu staði víðsvegar um landið sem ég ætla að keyra á, á tólf dögum. Djarft, ok pínu. En verður örugglega svakalega gaman. Nú þegar hef ég kynnst fullt af fólki sem tekur mér ótrúlega vel.Hlakka alveg rosalega til.

Í bland við Indversku pælinguna og tónlistina mína, ætla ég að fara yfir farinn veg, spjalla og spila lög sem hafa fyllgt mér alla tíð.

Verst finnst mér að þurfa að syngja,en það verður í lámarki. Ætla mér að vera mjög lágstemmdur og rólegur í alla staði. Svo vona ég bara að einhver komi á tónleikana,en vona einnig að það komi ekki allt of margir, því þá verð ég feiminn. Sé fyrir mér 20-25 max, en get alveg átt von á einum eða tveim þessvegna.

Gerði plakat þar sem allir staðirnir eru merktir fyrir áhugasama. Og lesandi góður ef þú þekkir einhvern sem býr einhverstaðar nálægt þessum stöðum , máttu alveg láta vita. Túrinn byrjar hjá Kela vini mínum á Snæfellsnesi á sunnudaginn 27.maí. Gott að hafa generalprufu í gistiheimilinu Langaholti. Daginn eftir Félagsheimilið Vogaland Króksfjarðarnesi, svo Bíldudalur, félagsheimilið Baldurshagi.Þá er það Þingeyri, Simbahöllin 30. Maí. Suðureyri við Súganda 31.maí, aldrei komið þangað. 1.júní er það Jón Indíafari á Súðavík,fallegur staður sem Öddi og Rúna Lilja og Skundi litli eiga heima. 2.júní Drangsnes, Malarhorn en þar er ætlunin að vera með eftirmiðdags tónleika kl 15.30.(allir hinir eru kl 20.30 ) Svo höldum við sjómannadaginn heilagan, því það er nokkuð langur bíltúr á Kópasker sem er næst.Mánudagurinn 4.júní skólinn á Kópaskeri. Daginn eftir Sauðaneskirkja Þórshöfn. Svo brunað á Stöðvarfjörð og spilað í kirkjunni þar 6.júní. Annar langur bíltúr, alla leið í Vík Mýrdal og spilað á Hótel Lunda 7.júní. Aðgangur er ókeypis á alla tónleikana

Held að það væri ráð að bóka svo heilsuhælið í Hveragerði næsta hálfa mánuðinn á eftir. Djók.