Björgvin Gíslason
 

Pelican ævintýrið

Pelican byrjaði svo með látum vorið 1973 enda Pétur alltaf jafn vinsæll. Það gekk fínt. Uppúr áramótum 1974 hélt hljómsveitin til til Ameríku til að gera plötu sem tekin var upp með hraði – á tíu dögum eða svo. Þetta var Uppteknir.

Þetta varð dálítið hraðsoðin plata en útkoman var bara þokkaleg miðað við aðstæður og platan rokseldist. Áður en við fórum til Ameríku ákváðum við að selja öll okkar hljóðfæri og kaupa okkur allt nýtt fyrir vestan. Eftir á að hyggja var þetta ekki mjög góð hugmynd því maður á aldrei að selja hljóðfæri, bara kaupa sér ný! Ég sé sérstaklega eftir öllu Marshall dótinu, tveimur góðum mögnurum og að minnsta kosti tveimur Marshall boxum.

Þegar komið var til New York var haldið beint í hljóðfæraverslun Manny’s á Manhattan en þar átti að vera besta úrvalið. Afgreiðslumennirnir þar voru hins vegar heldur afundnir og snúnir. Einn úr bandinu ranglaði þá út á götu og sá í næsta húsi var önnur hljóðfæraverslun, kennd við Sam Ash. Þar voru áhugasamir og vingjarnlegir afgreiðslumenn sem vildu allt fyrir Íslendingana gera. Þar keyptum við fullan sendibíl af græjum: Wurlitzer píanó, SG magnara og pedala í löngum röðum, ketiltrommur, Ovation gítara og söngkerfi með öllu tilheyrandi. Og þar sem verið var að hlaða öllu góssinu inn í bílinn komu sölumennirnir frá Manny’s hlaupandi með nærboli til að gefa Íslendingunum. Þeim hefði verið nær að sinna sveitamönnunum frá landinu sem þeir höfðu aldrei heyrt nefnt!

How Do I Get Out of New York City?

Síðdegis næsta dag var lagt af stað til Stockbridge í Massachusetts þar sem var að finna Shaggy Dog hljóðverið. Ferðin átti að taka tvo eða þrjá tíma – en tók rúma tólf, því ekki var auðvelt að rata út úr stórborginni. Þjóðvegur #7 sem átti að liggja beina leið til Stockbridge, virtist yfirleitt liggja í hina áttina ef hann var þá sjáanlegur. En á leiðinni varð þó til lag sem rataði á plötuna – How Do I Get Out of New York City? Ásgeirs Óskarssonar sem nú er orðið að stefi Kastljóssins í sjónvarpinu.

 

Fljótlega eftir heimkomuna hélt Pelican eftirminnilega tónleika í Austurbæjarbíói til að kynna plötuna. Ekkert var til sparað og fengnir aukamenn til að geta flutt allt sem á plötunni var: hljómborðsleikararnir Kristján Guðmundsson, sem hafði verið barnastjarna í Bravó frá Akureyri, og austfirðingur að nafni Hlöðver Smári Haraldsson (sem varð svo sjötti maðurinn í bandinu um tíma). Uppselt var á þessa tónleika á met tíma. Hljómsveitin var í mikilli uppsveiflu sem virtist engan enda ætla að taka. Hvert krummaskuð var heimsótt og alls staðar fullt út úr dyrum. Hljómsveitin tók stórstígum framförum við aldrei var slegið slöku við æfingar – æft frá níu til fimm alla daga og spilað á fullu um helgar.

Snemma árs 1975 var farið aftur til Stockbridge til að gera nýja plötu sem hlaut nafnið Lítil fluga. Þetta varð sex vikna túr sem endaði með því að Pelican tróð upp á nokkrum stöðum vestra, smáklúbbum í Boston og nágrenni og háskólum norðar í fylkinu. Það var hugur í mönnum: nú átti að vanda sig. Lögin voru orðin mun þyngri en á Uppteknir og því varla eins líkleg til vinsælda.

Kúlutyggjópopp

Eftir mikið þóf, málaferli og allskonar erfiðleika, kom Lítil fluga loksins út. En eitthvað var þá mórallinn í bandinu farinn að gefa sig. Einn daginn var Pétur ekki lengur í Pelican en Herbert Guðmundsson kominn í han s stað.Það stóð ekki lengi og þegar kom fram á haustið var Pelican fjögurra manna band með engan framvörð. Í desember 1975 lauk þeirri sögu.