Björgvin Gíslason
 

Í hljómsveit með þeim „stóru“

Um jólin ’68 voru Pops svo að spila uppi á Keflavíkurvelli. Þar voru mættir til að hlusta Jónas R. Jónsson og Siggi Árna, miklar poppstjörnur á þessum tíma, sem voru komnir í hljómsveitarhugleiðingar. Jónas og Siggi buðu Björgvin að koma með sér í nýja hljómsveit.

Í hljómsveit með þeim „stóru“, hvorki meira né minna. Frekar gekk þetta þó rólega í byrjun, stöðugt verið að hittast en minna gert. Um vorið ’69 hófust loks æfingar sem voru bæði langar og strangar. Svo var að ákveða nafn á bandið. Jónas kom með nafn sem féll vel í kramið: Náttúra skyldi sveitin heita. Þetta voru Jónas sem söng og spilaði á flautu, Siggi Árna á bassa, ég á gítar og Rafn Haraldsson trommuleikari úr Flowers. Svona skipuð spilaði Náttúra í eitt og hálft ár og gerði það bara nokkuð gott. Við vorum meðal annars á Popphátíðinni frægu í Laugardalshöllinni haustið 1969 þegar Bjöggi Halldórs var kosinn Poppstjarna. Þar fluttum við útdrátt úr poppóperunni Tommy sem við fluttum reyndar líka í sjónvarpi. Annars vorum við helst frægir fyrir Jethro Tull-lög sem voru  aðal uppistaðan í prógramminu.

Blús og meiri blús

Björgvin var þó alltaf með hugann við blúsinn og á þessum tíma var tekinn upp tímamóta sjónvarpsþáttur með blús: Björgvin á gítar, Halli Þorsteins (bassa og söng) og Óli Sig á trommur. Jónas var bandinu innan handar við upptökuna – og í fyrsta sinn í sögu sjónvarpsins var allt gert í einu: hljóð og mynd. Fram til þessa hafði verið meira haft við: fyrst tekið upp hljóð og svo farið í myndverið þar sem hljómsveitin mæmaði.


Rabbi,  Björgvin,  Jónas,    Siggi

Björgvin,       Siggi                     Rabbi              Jónas